Pontiac GTO

Mesta vöðvabúnt sögunnar?

Pontiac GTO kom fram á sjónarsviðið 1964. Olíukreppan var ekki í augsýn og engin ástæða til að hafa áhyggjur af eldsneytisnotkun. Vélaraflið var í fyrirrúmi og það notað óspart til að höfða til væntanlegra kaupenda. Á þessum árum var samkeppnin hörð í þessum geira bílaiðnaðarins vestanahafs og hugtakið "muscle car" í hávegum haft.

Sumir segja að GTO sé mesta vöðvabúntið sem framleitt hefur verið, eða beri af öðrum bílum í þessum flokki. Erfitt er að meta hvað sé réttí því efni. Kannski er það aðeins til marks um klassíska fortíðarþrá þegar miðaldra stútungskarlar gráta enn "geitina" sem þeir seldu forðum daga og vildu gefa mikið fyrir að eignast hana á ný.

Sá sem þetta ritar er enginn sérfræðingur í GTO-fræðum. Enn síður ætlar hann sér ekki að dæma um ágæti þessa bíls í samanburði við aðrar gerðir. Markmiðið er að veita áhugasömum Íslendingum tækifæri til að skoða þetta undarlega farartæki og ýmislegt sem því tengist á einum stað á vefnum.